Hér getur þú fundið skýringar á öllum flóknu orðunum sem koma fyrir í myndböndunum.

Að ná kjöri – Það að vera kosinn.

Almanntryggingakerfi – Kerfi sem byggir á lögum og á að tryggja öllum íbúum landsins nauðsynlega aðstoð t.d. með því að greiða bætur ef þeir geta ekki unnið af einhverjum ástæðum.

Almenningur – Stór hluti eða allir íbúar í ríki.

Alþingi – Samkoma fulltrúa sem þjóðin hefur kosið til að setja lög. Fer með löggjafarvald ásamt forseta Íslands. Er valdamesta stofnun íslenska ríkisins.

Alþingiskosningar – Almennar og leynilegar kosningar til þess að kjósa fulltrúa á Alþingi þ.e. alþingismenn.

Atvinnufrelsi – Réttur til að mega stunda þá atvinnu sem maður kýs.

Ákvæði – Afmörkuð fyrirmæli í lögum.

Bein kosning – Sjá beint lýðræði. Atkvæðagreiðsla sem allir sem hafa kosningarétt geta tekið þátt í.

Beint lýðræði – Borgarar taka sjálfir ákvarðanir um samfélagsleg málefni, með beinni atkvæðagreiðslu.

Borgari – Einstaklingur sem býr í ríki og nýtur almennra réttinda og ber almennar skyldur samkvæmt lögum.

Dómsvald – Opinbert vald til að leysa endanlega úr ágreiningi um réttindi og skyldur manna. Einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Dómarar fara með dómsvaldið.

Efnahagur – Fjárhagur.

Einkamál – Mál fyrir dómstólum sem snýst um að leysa úr ágreiningi um réttindi og skyldur. Öll önnur dómsmál en refsimál.

Embætti – Opinber staða hjá ríkinu eða stofnun á vegum ríkisins.

Embættismaður – Ríkisstarfsmaður í hárri stöðu.

Embættisskyldur – Ákveðin skylda sem fylgir starfi embættismanns.

Félagafrelsi – Réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi.

Forsenda – Ákveðið skilyrði sem þarf að vera til staðar.

Forseti Íslands – Þjóðhöfðingi Íslands þ.e. æðsti fulltrúi þjóðarinnar.

Forsætisráðherra – Æðsti maður ríkisstjórnarinnar.

Frambjóðandi – Sá sem gefur kost á sér í kosningum, annaðhvort sem einstaklingur eða sem fulltrúi á lista ákveðins stjórnmálaflokks.

Framboð – Það að bjóða sig fram í kosningum. Einstaklingar eða stjórnmálaflokkar geta verið í framboði.

Framkvæmdarvald – Það opinbera vald sem felst ekki í því að setja lög eða dæma dóma. Einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Forseti Íslands og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.

Frelsisskerðing – Takmörkun á frelsinu til að ráða sér sjálfur.

Friðhelgi eignarréttar – Réttur til að njóta eigna sinna í friði.

Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu – Réttur til að fá að hafa einkamálefni sín í friði og vernd fyrir óþarfa afskiptum af persónulegum málefnum, fjölskyldu og heimili.

Fulltrúalýðræði – Borgarar kjósa fulltrúa sína til að taka ákvarðanir um stjórn ríkisins og sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar.

Grundvallarframfærsla – Það sem þarf til að grundvallarþörfum einstaklings sé uppfyllt, svo sem matur, húsnæði og fatnaður.

Grundvallarréttindi – Sjá mannréttindi. Þau réttindi sem eru vernduð í mannréttindasamningum og yfirlýsingum.

Handhafar ríkisvalds – Þeir aðilar sem fara með ríkisvald, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Jafnrétthár – Það að njóta sömu stöðu. Að vera hvorki æðri né lægra settur en aðrir.

Jafnræðisregla – Regla sem felur það m.a. í sér að allir eiga sama rétt og að komið skuli eins fram við fólk sem eru í sambærilegri stöðu, nema málefnalegar ástæður réttlæti annað.

Kjósandi – Sá sem tekur þátt í kosningum.

Konungsveldi – Konungsdæmi. Ríki þar sem þjóðhöfðinginn er konungur eða drottning. Ekki er kosið um hver eigi að vera þjóðhöfðingi heldur gengur það í erfðir.

Kosningaréttur – Réttur til þess að taka þátt í kosningum. Þeir sem eru 18 ára og eldri mega kjósa í kosningum til Alþingis og forseta á Íslandi.

Kynferði – Kyn einstaklings, þ.e. hvort hann sé karl eða kona.

Kynþáttur – Hópur fólks með ákveðin arfgeng útlitseinkenni, eins og t.d. húðlit.

Leynileg kosning – Kosning sem fer fram með leynilegum hætti, þannig ekki er hægt að komast að því hvað hver og einn kaus.

Lýðræði – Skipulag ríkis þar sem valdið kemur frá almenningi. Almenningur hefur áhrif á samfélagsleg málefni og kýs æðstu valdhafa.

Lýðræðislegt – Eitthvað sem fylgir reglum lýðræðis.

Lýðræðisríki – Ríki þar sem valdið kemur frá fólkinu, beint eða óbeint.

Lýðveldi – Ríki þar sem þjóðhöfðingi þ.e. æðsti fulltrúi þjóðarinnar, er kosinn af fólkinu.

Lög – Fyrirmæli frá löggjafarvaldinu sem eru bindandi fyrir alla, bæði aðra handhafa ríkisvalds og fólkið í landinu. Getur líka átt við um aðrar reglur sem eru bindandi fyrir fólk.

Löggjafarvald – Opinbert vald til að semja og setja lög. Einn af þremur þáttum ríkisvaldsins. Alþingi og forseti Íslands fara með löggjafarvaldið.

Mannréttindi – Tiltekin grundvallarréttindi sem allar manneskjur eiga að njóta, án mismununar.

Málaflokkur – Flokkur skyldra viðfangsefna t.d. menntamál og heilbrigðismál.

Málskotsréttur – Réttur forseta Íslands til þess að neita að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þannig getur hann skotið málinu til þjóðarinnar sem þarf að kjósa um hvort lögin eigi að taka gildi eða ekki.

Minnihlutastjórn – Ríkisstjórn sem er skipuð stjórnmálaflokki sem hefur ekki meirihluta þingmanna á bak við sig.

Mismunun – Þegar sambærileg tilvik eða einstaklingar í sambærilegri stöðu fá mismunandi meðferð, eða þegar ólík tilvik eða fólk í ólíkri stöðu fær sömu meðferð, án þess að hægt sé að réttlæta það með málefnalegum ástæðum.

Neitunarvald forseta – Sama og synjunarvald. Vald forseta til að neita að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt. Er í raun málskotsréttur þ.e. réttur til að skjóta málinu til þjóðarinnar.

Nýlenda – Land sem annað fjarlægt ríki ræður yfir.

Óflekkað mannorð – Það að hafa ekki verið fundinn sekur um brot sem telst mjög alvarlegt samkvæmt áliti almennings.

Ólögmæti – Það að eitthvað sé andstætt lögum.

Persónufrelsi – Frelsi til þess að ráða sjálfur eigin málum t.d. hvað maður gerir, hvar maður býr og hvert maður fer.

Pólitískir forsetar – Þjóðhöfðingjar í lýðveldum sem fara einnig með raunverulegt framkvæmdarvald, eins og t.d. Í Bandaríkjunum og Frakklandi.

Ráðherra – Sá sem á sæti í ríkisstjórn. Ráðherrar fara í raun með það framkvæmdarvald sem forseta Íslands er veitt í stjórnarskránni, hver í sínum málaflokki.

Ráðuneyti – Stofnanir sem ráðherrar stjórna. Hvert ráðuneyti hefur sína málaflokka sem það ræður yfir.

Refsimál – Sakamál þ.e. mál sem eru höfðuð af ríkinu þegar grunur er um að einstaklingur hafi framið afbrot.

Réttarríki – Ríki þar sem lögum sem uppfylla ákveðin lágmarksskilyrði er fylgt.

Réttindi – Þær heimildir eða vernd sem lög og reglur veita.

Réttlát málsmeðferð – Meðferð máls fyrir dómi sem er sanngjörn og fer eftir þeim reglum sem eru settar í lögum og mannréttindasamningum.

Réttur til félagslegrar aðstoðar – Réttur til að fá aðstoð og framfærslu ef maður þarf á henni að halda t.d. ef maður getur ekki unnið.

Ríki – Samfélag manna sem búa á afmörkuðu svæði og við ákveðið skipulag sem byggir á lögum. Ríki eru sjálfstæð lönd sem stjórna sér sjálf, eins og t.d. Ísland.

Ríkisstjórn – Hópur ráðherra sem fara með stjórn ríkisins.

Ríkisstjórnarmyndun – Þegar ákveðið er hverjir skulu vera ráðherrar og sitja í ríkisstjórn. Það ræðst af stuðningi Alþingis hvaða aðilar geta myndað ríkisstjórn.

Ríkisvald – Þær heimildir eða þau völd sem ríki hefur á sínu svæði. Skiptist í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Samfélag – Hópur manna. Íslenskt samfélag eru því allir sem búa á Íslandi.

Sjálfstæði dómstóla – Það að dómstólar séu óháðir og hlutlausir.

Skoðanafrelsi – Réttur manna til að mynda sér sínar eigin skoðanir.

Stjórnarfyrirkomulag – Fyrirkomulag stjórnar ríkis og skipulags þess.

Stjórnarskrá – Æðstu lög á Íslandi. Hún segir til um hvernig ríkinu er stjórnað og hvaða rétt fólkið í landinu hefur.

Stjórnkerfi – Stofnanir og skipulag ríkisins.

Stjórnmálaflokkur – Félag sem vinnur að því að hafa áhrif á samfélagið t.d. með því að bjóða sig fram til Alþingis.

Stjórnsýsla – Starfsemi stjórnvalda þ.e. þeirra sem fara með framkvæmdarvald.

Stjórnvöld – Þeir aðilar sem fara með framkvæmdarvald á vegum ríkis eða sveitarfélaga.

Synjunarvald forseta – Vald forseta til að neita að skrifa undir lög sem Alþingi hefur samþykkt. Er í raun málskotsréttur þ.e. réttur til að skjóta málinu til þjóðarinnar.

Tjáningarfrelsi – Réttur til að tjá sig, hvort sem það er með orðum eða athöfnum.

Trúfélag – Félag manna sem aðhyllast sömu trúarbrögð.

Trúfrelsi – Frelsi til að velja sér, skipta um og rækja þá trú sem maður vill.

Utanþingsstjórn – Ríkisstjórn sem er skipuð einstaklingum sem eru ekki alþingismenn.

Valdhafar – Þeir sem fara með ríkisvald þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Yfirvöld – Þeir sem fara með ákveðin völd innan ríkisins, t.d. handhafar ríkisvalds.

Þing – Formleg samkoma t.d. til að setja lög. Sjá Alþingi.

Þingmenn – Alþingismenn þ.e. þeir sem hafa verið kosnir sem fulltrúar þjóðarinnar til að eiga sæti á Alþingi.

Þingræði – Fyrirkomulag sem felur í sér að ríkisstjórn verði að hafa stuðning meirihluta Alþingis.

Þjóðaratkvæðagreiðsla – Bein kosning sem almenningur tekur þátt í.

Þjóðernisuppruni – Það að vera frá ákveðinni þjóð eða tilheyra ákveðnum þjóðflokki

Þjóðhöfðingi – Æðsti fulltrúi þjóðar.

Þjóðkirkjan – Sú kirkja sem ákveðið er í stjórnarskrá að ríkið skuli styðja og vernda, þ.e.  hin Evangelíska-lúterska kirkja.

Þjóðþing – Samkoma fólks sem hefur verið kosið af þjóðinni til að setja lög. Sjá Alþingi.

Þrískipting ríkisvalds – Skipting ríkisvalds í þrjár greinar, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Örorka – Skert geta til að vinna vegna sjúkdóms, fötlunar eða slysa.

Stjórnlög unga fólksins er samstarfsverkefni UNICEF á Íslandi, umboðsmanns barna og Reykjavíkurborgar. Hafðu samband við okkur á stjornlogungafolksins@reykjavik.is

Reykjav�kurborg Unicef Umbo�sma�ur Barna